Saturday, January 9, 2016

Bananamúffur

Þessi laugardagur er búinn að vera einkar ljúfur. Litla ljósið okkar byrjaði í jazzballet og fyrsti tíminn stóð heldur betur undir væntingum. Hún er í hóp með vinkonu sinni af leikskólanum og það gerir upplifunina auðvitað ennþá skemmtilegri. Mér leið eins og hún hefði elst um þó nokkuð mörg ár þar sem hópurinn hennar samanstóð af 4-6 ára stúlkum og mömmur og pabbar biðu bara fyrir utan á meðan. Ég reyndi að gægjast inn um gluggann en það bar takmarkaðan árangur þar sem hún mátti helst ekki koma auga á mig með nefið á rúðunni..

Áður en við lögðum af stað í morgun spurði Emilía hvort við gætum bakað bananamúffur. Henni finnst ofsalega gaman að dandalast með mér í eldhúsinu og mér finnst það svo jákvætt og vil endilega ýta undir það. Hún er einkar flinkur hjálparkokkur og afurðin verður alltaf mun girnilegri í litlum augum ef hún veit að hún á sinn þátt í henni.  :)

Við höfum margoft gert bananamúffur áður en þessi skammtur kom einkar vel út og langaði mig að deila uppskriftinni hérna. Ekki síst fyrir mig þar sem ég á það til að vera aðeins of fljót að gleyma.




Innihald:

- 3 bananar (því þroskaðari því betri)
- 2 egg
- 5 stevia dropar (ég notaði Better stevia liquid sweetener, dark chocolate frá NOW)
- 50 ml olía (ég notaði isio4)
- 250 g hafrar
- 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 2 tappar vanilludropar
- 70% súkkulaði (eða t.d. döðlur) smátt saxað - magn eftir smekk en ég mæli með 50-75 g


Aðferð:
Byrjið á því að stappa bananana, mér finnst gott að hafa þá gróflega stappaða svo maður finni fyrir smá bananabitum í kökunum, en það er auðvitað smekksatriði. Sullið svo restinni allri saman við, það gerist varla einfaldara. Því næst er deiginu skipt á milli muffinsforma (svona u.þ.b. 2 kúfaðar teskeiðar) og þau sett í ofn í u.þ.b. 20 mín á 200 gráður. Úr þessari uppskrift komu 22 múffur.

Múffurnar eru ofsalega góðar þegar þær eru ný komnar út úr ofninum. Þar sem þetta er svolítið stór uppskrift stefni ég að því að geyma það sem ekki verður borðað bara inn í frysti og hita þær upp í örranum þegar á þarf að halda. Það er sko ekki verra að eiga svona gotterí til á lager :)  




No comments:

Post a Comment